Íslenski boltinn

Tvær skráðar með sama númer á skýrslu og sú rétta fékk ekki markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonur fagna hér þriðja marki sínu og þarna má sjá bæði Jasmín Erlu Ingadóttur og Önnu Björk Kristjánsdóttur.
Valskonur fagna hér þriðja marki sínu og þarna má sjá bæði Jasmín Erlu Ingadóttur og Önnu Björk Kristjánsdóttur. Vísir/Anton Brink

Það er því miður gömul saga og ný að ekki sé ekki gengið frá leikskýrslum Bestu deildar kvenna með réttum hætti. Enn eitt dæmið er úr leik Vals og Þór/KA í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna.

Þar staðfestir dómari leiksins, Gunnar Freyr Róbertsson, leiksskýrslu leiksins þrátt fyrir að tveir leikmenn Valsliðsins séu skráðar hafa spilað leikinn í treyju númer 29.

Það slæma við þetta er að önnur þeirra skoraði. Sem betur fer fékk hvorug þeirra spjald.

Mörkin, spjöldin og skiptingarnar í umræddum leik.Heimasíða KSÍ

Dómara leiksins ruglaði hreinlega sjálfan sig í skráningu á einu marki Valsliðsins í leiknum.

Hann skráði markið vissulega á leikmann númer 29 sem var rétt. Honum tókst þó að setja það á þann leikmann sem var skráð hafa spilað í 29 þótt hún spilaði í raun í treyju 19.

Jasmín Erla Ingadóttir spilaði númer 29 og skoraði þriðja mark Valsliðsins í leiknum.

Anna Björk Kristjánsdóttir er líka skráð númer 29 en spilaði í raun í treyju númer 19. Hún var aftur á móti skráð í rangt treyjunúmer á skýrslunni og fékk að launum mark skráð á sig.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum.

Leikurinn fór fram 21. apríl og því er liðin meira en vika frá því að honum lauk.

Markið er enn skráð á vitlausan leikmann og tveir leikmenn eru enn skráðar á skýrslu númer 29.

Það verður erfitt fyrir Jasmín Erlu Ingadóttur að vinna aftur gullskóinn eins og sumarið 2022, ef öll mörkin hennar eru skráð á annan leikmann.

Þetta verður vonandi leiðrétt sem fyrst. Jasmín Erla hefur greinilega ekki gert athugasemd við þetta en getur varla verið sátt.

Hér má sjá númer leikmanna á leikskýrslunni.Heimasíða KSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×